Beint į leišarkerfi vefsins
Gamli Baukur - Vertshśs viš höfnina

Saga Gamla Bauks

Gamli Baukur 1884 - 1904

- Hóflega drukkið vín gleður mannsins hjarta

 

Sagan hefst rétt fyrir miðja nítjándu öld er reist var hús við Búðarárgilið skammt frá þeim stað sem Gamli Baukur stendur nú. Húsið var reist sem sýslumannshús og þjónaði þeim tilgangi allt þar til Benedikt Sveinsson (faðir Einars Benediktssonar skálds) fékk sýsluna. Sá vildi ekki búa í húsinu en reisti sér hús á Héðinshöfða rétt norðan við bæinn. Árið 1884 hefst síðan saga Gamla Bauks fyrir alvöru er Sveinn Magnússon frá Víkingavatni í Kelduhverfi festi kaup á húsinu og hóf rekstur greiðasölu og gistihúss. Byggði hann annað minna hús við hlið sýslumannshússins sem svefnskála. Sagan hermir að erlendum gestum hafi þótt aðstaðan heldur ómerkileg en héraðsmönnum féll hún hins vegar vel í geð.

 

Húsið var nú ýmist kallað Vertshúsið eða Baukur og Sveinn nefndur Sveinn víkingur eða Sveinn vert. Sveinn mun hafa verið heljarmenni að burðum, röggsamur og stjórnsamur en þó vel liðinn og hrókur alls fagnaðar. Hann stjórnaði Bauknum eftir eigin höfði og neitaði meðal annars að afgreiða þá sem honum fannst hafa fengið nóg því hann vildi meina að hóflega drukkið vín gleddi mannsins hjarta. Baukurinn var sannkölluð skemmtanamiðstöð Þingeyinga á þessum tíma, fyrsta sinnar tegundar á svæðinu og Sveinn gerði ekki upp á milli manna, sýslumenn, bændur, Kaupfélagsmenn eða verslunarmenn, allir fengu afgreiðslu hjá Sveini.

 

Sveinn lést fyrir aldur fram árið 1894 en Kristjana kona hans hélt rekstrinum áfram allt þar til hún lést árið 1904. Eftir það fékkst vínveitingaleyfið ekki endurnýjað, stúkuandinn helltist yfir Húsvíkinga og nærsveitamenn en sögurnar af Gamla Bauk lifðu áfram og lifa enn.

 

Gamli Baukur brann til kaldra kola árið 1960.

Gamli Baukur frá 1998

- Nýr Baukur á gömlum grunni

 

Gamli Baukur stendur í hjarta Húsavíkurbæjar með útsýni yfir sjóinn og höfnina. Húsið var reist á árunum 1997 – 1999 og er í þremur hlutum sem nefnast Gamli Baukur, Litli Baukur og Skipasmíðastöðin. Húsin eru smíðuð úr rekaviði sem fenginn var á strandlengjunni frá Flateyjardal norður að Melrakkasléttu og efnið er því meðhöndlað af náttúrunnar hendi. Innandyra er Baukurinn hlýlegur, sjórekinn viðurinn kallast á við ýmsa muni tengda sjósókn og gömul gildi eru í hávegum höfð, gamlir skipakastarar og koparluktir skapa þægilega og rólega stemningu og fyrir utan gluggann vagga bátarnir í höfninni.

 

Á Gamla Bauk er rekinn metnaðarfullur veitingastaður þar sem nútíminn mætir þessum gömlu gildum. Matseðillinn samanstendur af réttum úr ýmsum áttum þar sem sjávarfangið skipar veigamestan sess. Hvort heldur sem um er að ræða klassískan hamborgara eða framandi fiskrétti, salatdiska eða eftirrétti er hráefnið ávallt fengið brakandi ferskt frá birgjum úr nágrenninu og ekkert til sparað. Sjávarfang dagsins er síðan ferskasti fiskur sem völ er á þann daginn matreiddur á nýstárlegan hátt og borinn fram örfáum klukkustundum eftir að hann er dreginn úr sjó.

 

Bjór- og vínseðlar eru fjölbreyttir og starfsfólkið boðið og búið til ráðlegginga varðandi val á vínum með mat. Kaffidrykkir fást í úrvali ásamt eftirréttum.

 

Á kvöldin skapast þægileg kráarstemning á Bauknum. Mikið úrval drykkja prýðir barinn og hægt er að panta sér smárétti eða grípa í spil. Um helgar dunar dansinn á Skipasmíðastöðinni, tónleikar, böll og diskótek meðan rólegri gestir geta haft það náðugra á Gamla Bauk yfir drykk.

 

Í anda Sveins verts eiga allir að finna eitthvað við sitt hæfi á Gamla Bauk.

Baukur, Hákon & Pína

 - „Eina Pínu, eina Pínu, Sveinn“

 

Ekki er með fullri vissu vitað hvaðan nafngiftin Baukur kemur en þó er vitað að Sveinn vert hóf að veita brennivín í staupum. Sveitakörlum þótti það skrýtið uppátæki þar sem áður hafði aðeins tíðkast að drekka vínið af stút. Staupin eða glösin munu hafa verið í þremur stærðum, Stóri Hákon hið stærsta, Litli Hákon og loks Pína.

 

Til er saga af Bauknum þar sem menn sátu við drykkju. Sveini vert þótti þá maður nokkur að nafni Jónatan hafa fengið nóg að drekka og neitaði honum um afgreiðslu. Jónatan brást aumur við og grátbað Svein: „Eina Pínu, eina Pínu, Sveinn“. Nágranni Jónatans úr Aðaldalnum Sigurbjörn á Fótaskinni var hirðskáld Bauksins á þessum tíma og kastaði þá fram þessari vísu:

 

Vertu Sveinn við seggi jafn,

sittu á skapi þínu.

Hvítum svan og svörtum Hrafn

seldu í eina Pínu.

 

Hvort Jónatan fékk eina Pínu enn er óvitað.

 

Hver umræddur Hákon sem glösin heita eftir var er heldur ekki vitað og þá ekki hvort Pínan dregur nafnið af smæðinni eða hvort það hefur þótt pína að fá minnsta glasið. Það sem vitað er með vissu er að í dag drekkur fólk enn úr Stórum Hákoni, Litlum Hákoni og Pínu á Gamla Bauk.


Húsavík, Ísland


Višurkenningar & vottun:

Alžjóšlegar og innlendar višurkenningar frį 1995Noršursigling er leyfishafi FeršamįlastofuNoršursigling er leyfishafi Feršamįlastofu


Mynd


Fįnar

In English
  • North Sailing
  • Gamli Baukur
  • Skuld